Fréttir

Opið málþing í Sagnheimum - 7. október 2017, kl. 13

03.10.2017

Opið málþing í Sagnheimum, nk. laugardag kl. 13: Saga og þróun netagerða og netaverkstæða í Vestmannaeyjum í máli og myndum.

Við sögu koma m.a. Netagerð Vestmannaeyja, Kaðlagerð Þórðar Stefánssonar, Veiðarfæragerð Vestmannaeyja, Netagerðin Ingólfur, Netagerð Reykdals, Netaverkstæði Einars Sigurðssonar, Net, Netagerð Njáls og Sigurðar Inga, Ísfell, Nethamar, Hampiðjan o.fl.

Guðmundur Gunnarsson í Hampiðjunni í Reykjavík fer yfir þróun bornvörpunnar í heila öld.

Arnar Sigurmundsson, Haraldur Þorsteinn Gunnarsson, Birgir Guðjónsson, Guðlaugur Jóhannsson, Hallgrímur Júlíusson, Sigþór Ingvarsson og fleiri heimamenn komu að undirbúningi og leggja orð í belg. Kaffi á könnunni!

Allt áhugafólk er hvatt til að mæta og upplifa söguna sem mótað hefur þróun byggðar, atvinnu- og menningarlífs í Eyjum!

Málþingið er styrkt af SASS og Sagnheimum, byggðasafni.

Á meðfylgjandi ljósmynd Sigurgeirs má sjá Ingólf Theódórsson netagerðameistara og Jón Valgarð Guðjónsson skipstjóra kynna nýja gerð herpinóta 1969.

Haust og vetrarstarfið í Sagnheimum 2017

07.09.2017

Þó að safnið okkar sé enn opið daglega kl. 10-17 og verður svo til 1. október, þá er undirbúningur vetrarstarfs í fullum gangi. Gátum eiginlega ekki beðið og þjófstörtuðum með stórkostlegum ljóðaleik Þórhalls í Einarsstofu í síðustu viku og svo er næsta Eyjahjartað, sem enginn má missa af nk. sunnudag einnig í Einarsstofu.  Undirbúningur dagskrár um netagerð og netagerðarmenn í Eyjum hófst sl. vor hér í húsi og hafa margir verið kallaðir til skrafs og ráðagerða. Mjög skemmtilegt verkefni sem stöðugt vindur upp á sig í myndum og sögum. Afraksturinn birtist síðan í dagskrá á bryggjusvæði safnsins 7. október nk. Undirbúningur safnahelgar er líka langt kominn en hún verður líklega síðustu helgina í október í ár og verður þar margt spennandi á boðstólnum. Starfsfólk bókasafns er nú þegar að missa sig við undirbúning jólanna - það verður eitthvað sögulegt! Það er því algjör óþarfi að kvíða haustinu og vetrinum, því fjölmargar ástæður verða til að gleðjast í Safnahúsinu!

Á meðfylgjandi mynd má sjá listaverkagjöf Ástu Arnmundsdóttur og Sigurðar Jónssonar til minningar um föður Ástu, Arnmund Þorbjörnsson netagerðameistara (1922-2014). Myndina gerði Sigurfinnur Sigurfinnsson og kemur hún úr búi Arnmundar. Arnmundur tengdist sögu netagerðar á margvíslegan hátt, rak og átti Netagerð Reykdals og vann einnig lengi hjá Netagerð Ingólfs. Mynd Sigurfinns er næsta mynd sem kynnt verður í listaverkaskáp Safnahúss í anddyri bókasafns.

Opnunartími Safnahúss um Þjóðhátíð

02.08.2017

Opnunartími verður sem hér segir:

Sagnheimar: Föstudag kl. 10-15, laugardag-mánudags kl. 13-15.

Sýning Péturs Steingrímssonar í Einarsstofu: Örnefni í Vestmannaeyjum, er opin á sama tíma.

Bókasafnið er lokað föstudag-mánudags.

Gleðilega Þjóðhátíð!

Í minningu Tyrkjaráns - 16. júlí 2017

10.07.2017

Sunnudaginn 16. júlí verður þess minnst í Sagnheimum og Safnahúsi að 390 ár eru liðin frá þeim atburði er jafnan er kallaður Tyrkjaránið 1627.

Dagskrá:

Sagnheimar kl. 14: Drottningin í Algeirsborg eftir Sigfús Blöndal í flutningi Thelmu Lindar Þórarinsdóttur og Alberts Snæs Thorshamars, félaga Leikfélags Vestmannaeyja. Leikstjórn: Zindri Freyr Ragnarsson. Helga og Arnór flytja ljóð séra Jóns Þorsteinssonar píslarvotts við sín lög og annarra. Takmarkaður sætafjöldi.

Fyrir framan Safnahús kl. 15: Bréfdúfnafélag Íslands: Gjörningur til minningarum þá sem drepnir voru í árás sjóræningjanna á íbúa Vestmannaeyja 1627.

Einarsstofa, Safnahúsi kl. 15:15. Ragnar Sigurjónsson kynnir starfsemi og ævintýraveröld dúfna, m.a. hvernig fylgjast má með flugi bréfdúfna með til þess gerðu tölvuforriti.

Verið velkomin!

Dagskráin er styrkt af SASS, Sögusetri 1627 og Sagnheimum.

Meðfylgjandi teikning er eftir Jakob Smára Erlingsson og er í sýningu Sagnheima um  árásina.

Kvenréttindadagurinn 19. júní 2017 í Sagnheimum

27.06.2017

Að vanda minnast við þeirra áfanga sem náðst hafa á kvenréttindadaginn 19. júní með því að hittast í Sagnheimum kl. 16:30.

Guðný Gústafsdóttir kynjafræðingur flytur erindi, frænkurnar, Hafdís, Soffía og Sara flytja baráttulög kvenna og spjallað saman yfir kaffi og konfekti.

Allir hjartanlega velkomnir.

Dagskráin er styrkt af Rótarý og SASS.

 

 

Fjallkona Vestmannaeyja 2017

21.06.2017

Fjallkonan okkar í ár var Svanhildur Eiríksdóttir og flutti hún hátíðarljóð sitt, Ísland eftir Jökul Jörgensen, bæði á Hraunbúðum og á Stakkagerðistúni. Fjölmargir koma að því að búa fjallkonuna úr garði og þökkum við þeim öllum ásamt fjallkonunni fyrir að leggja svona mikla alúð og vinnu í verkið og skapa þessa hátíðlegu stund.  

Á myndinni má sjá Svanhildi fjallkonu ásamt heiðursverði sínum sem Skátafélagið Faxi sá um.

17. júní 2017 í Safnahúsi Vestmannaeyja

16.06.2017

Við hvetjum alla til að klæðast þjóðbúningi sínum á þjóðhátíðardaginn 17. júní.Fjallkonan okkar í ár er Svanhildur Eiríksdóttir og mun fulltrúi Sagnheima sjá um að skrýða hana eins og undanfarin ár. Hátíðarávarp sitt flytur hún í Hraunbúðum kl. 10:30 og á Stakkagerðistúni kl. 14.

Í Einarsstofu er sýning Gunnars Júlíussonar og Sigurgeirs í Skuld. Brugðið verður á leik og geta gestir stungið nafni sínu í pott kl. 10-16. Dregið verður úr pottinum kl. 16 og mun Gunnar Júl. teikna vinningshafann.

Opið verður í Safnahúsi kl. 10-17 og ókeypis inn í Sagnheima í tilefni dagsins. Gleðilega hátíð!

Hér að ofan má sjá fjallkonu Eyjamanna 2016 Dröfn Haraldsdóttur ásam heiðursverði sínum.

Sjómannadagurinn 2017

11.06.2017

Við óskum sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn!

Ókeypis er inn á safnið í dag í tilefni dagsins, opið kl. 10-17.

Minnum einnig á sýningu Gunnars Júlíussonar og Sigurgeirs í Einarsstofu.

Í dag kl. 17 verður einnig í Einarsstofu kynning á nýrri bók um fiskveiðistjórnun víða um heim.

Allir velkomnir!

Vestmannaeyjar - safnapassi 2017

23.05.2017

Minnum á að hægt er að kaupa safnapassa í Sagnheimum, Sæheimum og Eldheimum sem gilda á öll söfnin. Með slíkum passa borga gestir í raun bara aðgang að tveimur söfnum og fá það þriðja í kaupbæti. Nú er einnig opið alla daga í Landlyst, kl. 10-17. Ókeypis aðgangur þar og einnig í stafkirkjuna.

Alþjóðlegi safnadagurinn 18. maí 2017

21.05.2017

Yfirskript Alþjóðlega safnadagsins í ár er: Söfn og umdeild saga: að segja það sem ekki má í söfnum. Markmið dagsins er að kynna og efla faglegt safnastarf á Íslandi og opna fyrir umræðuna um hlutverk safna þegar kemur að umdeildum og erfiðum frásögnum. Í Sagnheimum kynnti Már Jónsson prófessor í sagnfræði við HÍ nýútkomna bók sína: Fyrirfundnir fémunir í Vestmannaeyjum á fjórða áratug 19. aldar. Í bók sinni nýtir Már áður ónýttar heimildir um brauðstrit fólks á örðugum tímum í Vestmannaeyjum. Bókin er seld í Bóksölu stúdenta í Reykjavík en verður á sérstöku kynningarverði í Sagnheimum nú fyrst um sinn, kr. 2.500.

Sagnheimar - viðburðir - netagerðum frestað fram á haust

09.05.2017

Fyrirhuguðu málþingi og myndasýningu um netagerðir í Eyjum hefur verið frestað fram í október. Alls konar tafir hafa hrjáð þá sem unnu að samantektinni en eitt er ljóst að áhugi er mikill og efni nær óþrjótandi og mikilvægt að vanda til verka. Stígum því margefld fram í haust.

Nú er kominn inn á heimasíðuna okkar viðburðalisti Safnahúss fyrir árið 2016. Alls eru þetta 46 viðburðir og eru þá ekki taldir með vikulegar uppákomur svo sem ljósmyndadagurinn. Sjá nánar hér: http://sagnheimar.is/skrar/file/skjol/vidburdir-i-safnahusi-2016-kba.pdf.  Næsti viðburður verður síðan á íslenska safnadaginn 18. maí og verður nánar auglýst þegar nær dregur.

Meðfylgjandi mynd sýnir Ingólf Theódórsson netagerðameistara og Jón Valgarð (Gæsa) skipstjóra. Ingólfur gerði byltingarkennda breytingu á herpinótum (1969) sem Jón Valgarð prófaði síðan á Ísleifi IV. Nánar má lesa um þetta hér: http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=114043&pageId=1401094&lang=is&q=%ED%20Bylting%20%ED%20herpin%F3tavei%F0um

Sagnheimar - sumaropnun 2017

01.05.2017

Frá 1. maí til 30 september er opið daglega í Sagnheimum frá kl. 10-17. Búast má við breyttum opnunartíma um Þjóðhátíð og verður það auglýst sérstaklega.

Minnum einnig á Safnapassann sem gildir í Sagnheima, Sæheima og Eldheima og fæst á þeim stöðum. Einstaklingspassi er á 3.200 kr. og fjölskyldupassi á 8.700 kr.  Verið velkomin!

 

Sagnheimar - sumardaginn fyrsta

20.04.2017

Opið er í Sagnheimum í dag, sumardaginn fyrsta, kl. 13-16, í boði Vestmannaeyjabæjar.

Allir velkomnir.

Gleðilegt sumar!

Sagnheimar og Safnahús um páska

07.04.2017

Opið skírdag og laugardag fyrir páska kl. 13-16. Lokað aðra daga.

Gleðilega páska!

Saga og súpa í Sagnheimum og opnun sýningar, 13. mars 2017, kl12

10.03.2017

Mánudaginn 13. mars kl. 12 verður saga og súpa í Sagnheimum, byggðasafni.

Sólveig Rós fræðslufulltrúi Samtakanna ´78 flytur fyrirlesturinn. Litbrigði regnbogans: Mikilvægi fjölbreytileika í samfélaginu. Að fyrirlestri loknum opnar hún farandsýningu Þjóðminjasafnsins í Einarsstofu: Ég fæ ekki af mér að flýja af hólmi.

Dagskráin er styrkt af SASS.

https://www.facebook.com/sagnheimar/?hc_ref=PAGES_TIMELINE&fref=nf

Sagnheimar á þorranum

15.02.2017

Safnfræðsla til nemenda á öllum skólastigum er mikilvægur hluti í starfi Sagnheima. Þorrinn er tilvalinn til að fræðast um hvernig lífið var í gamla daga fyrir daga hamborgara og pizzu og þegar ekki var hægt að hlaupa út í búð eftir öllu sem hugurinn girntist. Fræðsla til yngstu barnanna er ekki síður mikilvæg - en stundum getur leiðin verið löng fyrir stutta fætur. Á mánudaginn pakkaði því safnstjóri niður nokkrum safnmunum og heimsótti bæði Kirkjugerði og Víkina og ræddi við börnin. Komu þar ýmsir við sögu, m.a.s. Grettir og Þyrnirós! https://www.facebook.com/sagnheimar/

Saga netagerðar í Eyjum

10.02.2017

Mikilvægur hluti af starfsemi Sagnheima er að safna saman og rannsaka sögu Vestmannaeyja, hvort sem það snertir atvinnusögu eða þætti daglegs lífs. Nú er starfshópur sem skipaður er netagerðarmönnum fyrr og nú ásamt Arnari Sigurmundssyni og safnstjóra að skrá sögu netagerðar í Vestmannaeyjum og kemur þar margt forvitnilegt í ljós. Afraksturinn verður síðan birtur í máli og myndum á málþingi í Sagnheimum í aprílmánuði. Fyrirspurnir okkar leiddu til þess að safninu barst þessi dýrgripur, sem hér má sjá á mynd, til varðveislu. Um er að ræða veski/tösku sem Rögnvaldur Jónsson (1906-1993) átti og notaði undir netanálar sínar og hafði ávallt með sér niður á bryggju en hann vann lengi í Netagerð Ingólfs. Í veskinu eru aðallega nálar sem notaðar voru við síldar- og loðnunætur en netamenn munu vafalaust greina þær betur fyrir safnið. Veskið hafði verið í vörslu Magnúsar Rögnvaldar Birgissonar og þökkum við honum kærlega fyrir að hafa varðveitt þennan dýrgrip svona vel.

Jólaratleikur í Sagnheimum 7. janúar 2017, kl. 13-16.

03.01.2017

Við byrjum nýtt ár á því að hjálpa Grýlu með óþekktarormana sína, jólasveinana. Þeir fengu að gista á safninu okkar í vonda veðrinu og dreifðu eigum sínum hreint um allt. Þegar Grýla og Leppalúði ræstu þá til að halda aftur til fjalla, hentust þeir af stað og gleymdu náttúrlega helmingnum! Getið þið komið krakkar og hjálpað okkur að finna dótið þeirra, svo að þeir geti nú tekið allt með sér?

Opið laugardaginn 7. janúar kl. 13-16. Frítt fyrir fullorðna í fylgd með börnum!

Jólakveðja úr Sagnheimum

22.12.2016

Við óskum öllum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs. Þökkum skemmtilegar samverustundir á árinu og horfum spennt til nýrra verkefna á næsta ári!

Sagnheimar,  byggðasafn verður opið 28.-30. desember kl. 11-15 og síðan á þrettándanum 7. janúar, nánar auglýst síðar.

Sagnheimar, byggðasafn

Myndin er úr Listasafni Vestmannaeyja og er eftir Gísla Þorsteinsson (1906-1987).

Jólasveinarnir koma til byggða!

12.12.2016

Jólasveinarnir í búningi Bryndísar Gunnarsdóttur birtast nú daglega fram að jólum á fésbókarsíðu Sagnheima: https://www.facebook.com/sagnheimar/

Þá má líka sjá í Einarssstofu Safnahúss ásamt ýmsu öðru sem minnir á jólin. Allir velkomnir í Safnahús Vestmannaeyja!